Nám og kennsla

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er framhaldsskóli með sveigjanlegt og nýstárlegt námsfyrirkomulag þar sem námsrýmin eru opin og allt nám er skipulagt með aðstoð kennslukerfisins „Moodle“.

Frá stofnun skólans árið 2004 hefur hann verið leiðandi í breyttum kennsluháttum og í nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. Þar af leiðandi tekur skipulag kennslunnar mið af þessu tvennu. Meginmarkmiðið með því að breyta kennsluháttum er að nám nemendanna verði skilvirkara – að þeir nái betri tökum á námsefninu. Með þetta að leiðarljósi eru notaðar aðferðir við kennsluna sem rannsóknir hafa sýnt að virka betur en hefðbundnar aðferðir. Þessar aðferðir eiga það allar sameiginlegt að megináherslan er á að nemendur séu sjálfir virkir í náminu þar sem það hefur komið í ljós að bestur árangur næst og nemendur læra mest þegar þeir þurfa að vinna í námsefninu og finna lausnir. Upplýsingatæknin er nýtt á margvíslegan hátt í náminu og fléttast inn í alla þætti skólastarfsins. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð og að nemandi tjái sig um efni áfangans bæði munnlega og skriflega. Námsmatið byggir á hugmyndum um leiðsagnarmat þar sem kennarinn er að meta vinnu nemenda frá viku til viku.