Innritun

Innritun nemenda

Síðast breytt: 6. október 2017

Innritun, réttur til náms.

Inntökuskilyrði í FSN er að hafa lokið grunnskóla.  Miðað er við að nemendur sem ljúka námi úr grunnskóla með B í einkunn í kjarnagreinum eiga að raðast inn á hæfniþrep 2 í framhaldsskólum.

Nemendur hefja nám í einstökum áföngum miðað við hæfni.

  • Skólinn velur áfanga fyrstu önnina.
  • Nemendur raðast í áfanga í kjarnagreinum eftir einkunnum úr grunnskóla.
  • Kjarnagreinar eru enska, íslenska og stærðfræði.

Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir sem rétt eiga á að hefja nám í framhaldsskóla samkvæmt málsgrein þessari eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, sbr. ákvæði 2. gr. og 33. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Framhaldsskóla er heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla enda miði þær að því að bjóða nemendum upp á nám sem hæfir undirbúningi þeirra, sbr. 2. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Innritun í framhaldsskóla er rafræn, þ.e. sótt er um skólavist á netinu. Umsækjendur þurfa að sækja um veflykil sem opnar þeim persónulegan aðgang að innrituninni. Sótt er um veflykil á menntagatt.is/innritun og kemur hann til baka í tölvupósti. Á sama stað er rafrænt umsóknareyðublað með leiðbeiningum og ýmsar upplýsingar um nám í framhaldsskólum.

Hvaða aðstöðu þarf?

Þar sem innritun fer fram á netinu þurfa nemendur að komast í nettengda tölvu til að geta sótt um. Hægt er að komast í nettengdar tölvur bæði í grunnskólum og framhaldskólum. Allir framhaldsskólar bjóða upp á aðstoð sé hennar óskað.

Þarf að senda eitthvað með umsóknunum?

Nemendur 10. bekkjar þurfa ekki að senda afrit af prófskírteinum úr grunnskóla með umsóknum. Einkunnirnar verða sendar rafrænt til þess skóla sem sótt er um. Vottorð eða sérstakar upplýsingar um nemendur, sem ekki er að finna á rafræna umsóknareyðublaðinu, geta nemendur hengt við umsókn sem fylgiskjal eða sent í pósti til skóla. Aðrir umsækjendur þurfa að senda með umsókn gögn sem ekki eru til staðar í upplýsingakerfi framhaldsskóla (Innu).

Hvar má fá aðstoð og ráðgjöf?

Námsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum þekkja vel til náms á framhaldsskólastigi og eru umsækjendur hvattir til að leita upplýsinga og ráðgjafar hjá þeim. Gott er að vera tímanlega á ferðinni því að maímánuður er mikill annatími í framhaldsskólum.

Nánar um skilyrði innritunar í Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Skólagjöld eru:

Innritunargjald kr. 6.000
Þjónustugjald * kr. 8.500
Nemendafélagsgjald kr. 3.500 (valfrjálst)
Samtals:  kr. 18.000

*Prentun, ljósritun, tölvuþjónusta og aðgangur að þráðlausu neti

Skólagjöld eru óafturkræf þó nemandi af einhverjum ástæðum hætti við skólavist.