Skólareglur

Skólareglur: Síðast endurskoðað: 08.09.2016

Skólasóknarreglur

 • Nemendum ber að sækja alla fast tíma samkvæmt stundatöflu og verkefnatíma eftir þörfum.
 • Kennarar skrá viðveru nemenda í hverjum föstum tíma. Ef nemandi mætir 20. mín of seint í tíma þá er skráð fjarvist.
 • Nemendur skulu stunda námið af kostgæfni og skila verkefnum á réttum tíma.
 • Séu nemendur fjarverandi úr skóla gilda vissar reglur um hvernig taka skal á slíkum fjarvistum eftir því hver ástæða fjarvistanna er. Geti nemandi ekki sótt skóla vegna veikinda eða af öðrum ástæðum skal hann tilkynna forföllin daglega á skrifstofu skólans. Læknisvottorði skal skila inn til skrifstofu ef veikindi vara lengur en þrjá daga.
 • Sé ástundun og verkefnaskilum nemenda ábótavant tilkynnir kennari það til umsjónarkennara. Umsjónarkennari ræðir við nemandann og foreldra hans ef hann er yngri en 18 ára og reynir að grafast fyrir um það hvers vegna hann stundar ekki námið eins og til er ætlast. Brjóti nemandi skólasóknarreglur ítrekað getur hann átt á hættu að vera vísað úr skóla.
 • Ef nemendur eru ósáttir við meðferð sinna mála geta þeir vísað málinu til skólaráðs og sótt skólann þar til niðurstaða skólaráðs er fengin.
 • Skólaráð getur í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá reglum þessum.

 

Reglur um verkefnaskil nemenda

 • Skólinn væntir þess að nemendur sinni náminu samviskusamlega og sýni frumkvæði í verkefnum.
 • Athugið: Frestur er nánast aldrei gefinn á verkefnaskilum. Eina undantekningin eru mjög alvarleg veikindi nemanda eða fráfall náins ættingja. Skólameistari Hrafnhildur Hallvarðsdóttir hrafnhildur@fsn.is er eini starfsmaðurinn sem hefur heimild til að gefa leyfi fyrir því að verkefnum sé skilað utan skilatíma.
 • Á kennarafundi 4.janúar 2016 var ákveðið að skilakassar myndu lokast á föstudögum kl. 18:00
 • Við vonum að með þessum nýju reglum verði verkefnaskil markvissari og fleiri nemendur skili verkefnum á réttum tíma.

 

Ritstuldur

 • Með ritstuldi er átt við að nemandi noti hugverk annarra í verkefnum sínum án þess að láta þess getið og vísa til heimilda eftir þar til  gerðum reglum. Gildir þá einu hvort um er að ræða hluta úr verki eða verkið í  heild.Með hugverki er átt við höfundarverk á borð við bækur, greinar, ritgerðir, aðrar  ritsmíðar, myndir eða annað jafnt á prenti, tölvutæku formi eða á annars konar  formi sem tilheyrir tilteknum rétthafa þess.

 

Viðurlög við brotum
Verði nemandi uppvís að ritstuldi eða misferli í verkefnavinnu ræðir kennari við hann og upplýsir hann um alvarleika málsins. Verkefnið telst ógilt og nemandi fær einkunnina 0.  Ef nemandi heimilar öðrum að endurrita verkefni sem hann hefur unnið fá báðir 0 fyrir verkefnið. Brot skulu færð í athugasemdir um nemanda á Innu.

Reglar gildir einnig ef hópur nemenda í samstarfsverkefni skilar sama hópverkefni og annar hópur að hluta eða heild.Við ítrekuð brot á ritstuldi þá fer nemandi í viðtal hjá skólameistara eða aðstoðarskólameistara og við ítrekuð og alvarleg brot er nemanda hugsanlega vikið úr áfanga.

Umgengnisreglur

Síðast endurskoðað: 8.september 2016

 • Nemendur skulu sýna góða umgengni í skólanum og á lóð hans.
 • Spjöll sem nemendur kunna að vinna á húsnæði skólans eða öðrum eigum hans ber þeim að bæta að fullu.
 • Nemendur sem ekki eru í kennslustund þurfa að gæta þess að trufla ekki kennslu.
 • Nemendur skulu gæta þess vandlega að farsímar þeirra valdi ekki truflun á vinnufriði í skólanum.
 • Matar og drykkjar má neyta í matsalnum en ekki annars staðar í húsinu. Þó er gerð undantekning með drykki í lokuðum ílátum.
 • Öll meðferð áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í skólanum og á samkomum og ferðalögum á vegum hans.
 • Reykingar og önnur tóbaksnotkun er bönnuð í skólanum og á lóð hans. Bannið á einnig við um rafsígarettur.
 • Auglýsingar varðandi skólahald og félagslíf nemenda eru leyfðar á veggjum skólans. Utanaðkomandi sem vilja auglýsa innan veggja skólans verða að fá leyfi hjá skrifstofunni.
 • Ítrekuð brot á reglum þessum geta leitt til brottrekstrar úr skóla.
 • Veita skal nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, s.s. brot á almennum hegningarlögum.

Tölvureglur

Síðast endurskoðað:12.janúar 2016

Nemendur fá aðgang að internetinu og þráðlaust tölvunet er til staðar í skólanum.

Skólinn hefur sett þessar reglur um tölvunotkun í skólanum:

 • Tölvubúnaður Fjölbrautaskóla Snæfellinga er eign skólans og hann á aðeins að nota í viðfangsefni sem tengjast skólastarfinu svo sem við kennslu, kynningar eða á annan hátt er samræmist markmiðum skólans.
 • Notendanafni og lykilorði notenda er óheimilt að deila með öðrum og nemandi má einungis nota sitt notendanafn á tölvuneti skólans. Handhafi notendanafns er ábyrgur fyrir allri notkun þess.
 • Nemanda er óheimilt að setja upp hugbúnað á tölvur skólans eða á neinn hátt breyta uppsetningu tölvubúnaðar.
 • Nemendum er óheimilt að afrita hugbúnað, tónlist, kvikmyndir eða önnur gögn sem eru vernduð höfundarrétti nema ef fyrir liggur leyfi eigenda.
 • Nemendum er bannað að senda óviðeigandi efni með tölvum skólans hvort heldur er í tölvupósti, á vefsíður eða með öðrum verkfærum. Hér er átt við fjölsendingar (keðjubréf, ruslpóst), ósiðlegt efni, og annað sem getur verið særandi eða meiðandi.
 • Nemendum er óheimilt að fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða að afrita nokkur gögn sem eru á tölvuneti skólans nema eigin gögn.
 • Óheimilt er að nota net skólans til að reyna að komast ólöglega inn á netsvæði eða tölvur annarra.
 • Óheimilt er að vera með matvæli í nálægð við tölvubúnað skólans.

Ítrekuð eða alvarleg brot á reglum þessum geta leitt til brottvísunar og brot sem varða við landslög verða kærð til lögreglu.