Samstarf Fjölbrautaskóla Snæfellinga og grunnskóla á Snæfellsnesi

Samstarf Fjölbrautaskóla Snæfellinga og grunnskóla á Snæfellsnesi

Meðal meginatriða núverandi menntastefnu er aukið svigrúm, sveigjanleiki og samfella á milli skólastiga og innan hvers skólastigs. Helstu markmið samstarfs og tengsla milli skólastiga eru að skapa samfellu í námi nemenda, koma til móts við þarfir þeirra og stuðla að markvissari uppbyggingu námsins.

Grunnskólar á Snæfellsnesi eiga í góðu samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Í samstarfinu felst m.a. ábyrgð á upplýsingagjöf milli skólanna, til nemenda og foreldra um nám á framhaldsskólastigi og hvernig samstarfinu er háttað.

Mánudaginn 2. maí s.l. hittust skólastjórnendur og skipulögðu samstarfið á þessu vori auk skólaársins 2016 – 2017.  Nemendur grunnskólanna munu fá heimsókn frá náms- og starfsráðgjafa grunn- og framhaldsskóla næsta vetur, auk heimsóknar frá fyrrum nemendum síns skóla sem nú stunda nám við FSN. Nemendum og forráðamönnum þeirra verður boðið á opið hús í FSN, auk þess sem forráðamönnum verður boðið á foreldrafund.

Nemendur í 10. bekk grunnskólanna í Stykkishólmi, Grundarfirði og Patreksfirði tóku þátt í framhaldsskólahermi miðvikudaginn 4. maí og tókst dagurinn mjög vel. Nemendur fengu að upplifa einn dag í framhaldsskóla þar sem þeir sóttu kennslustundir og unnu verkefni undir leiðsögn kennara FSN. Framhaldsskólahermirinn mun standa nemendum til boða næsta vor líka.