Framhaldsdeild á Vestfjörðum

Fjölbrautaskóli Snæfellinga – FSN, hóf rekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði haustið 2007. Rekstur deildarinnar er þróunarverkefni til 4 ára. Í framhaldsdeildinni geta nemendur af suðursvæði Vestfjarða stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara í Grundarfirði með aðstoð nútíma upplýsingatækni. Starfsmenn framhaldsdeildar á Patreksfirði veita nemendum leiðsögn á staðnum og halda utan um starfsemina. Nemendafjöldi deildarinnar hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi, eða frá því að vera 12 nemendur haustið 2007 í að vera ríflega 30 nemendur á haustönn 2009. Í nóvember 2009 var gerð sjálfsmatsskýrsla til kynningar á verkefninu, sem þá hafði starfað í tvö  ár. Attentus, mannauður og ráðgjöf gerði úttekt á starfsemi deildarinnar haustið 2010. Lesa má um úttekina hér. Úttekt á framhaldsskóladeild á Patreksfirði skýrsla 30 nóv 2010

Nám og kennsla í framhaldsdeildinni byggir á aðferðum dreifmenntar, en almennt má segja að dreifmennt sé góður kostur til að brúa bil milli landshluta og gera einstaklingum kleift að stunda það nám sem þeir kjósa sér hvar sem þeir eru staddir. Sjálfstæði í námi er oft meira þar sem nemendur vinna oft án beinnar tilsagnar kennara og þurfa því að taka mikla ábyrgð á eigin námi.

Dagleg starfsemi

Námið í framhaldsdeildinni er byggt upp þannig að nemendur eru ýmist hluti af nemendahópum í FSN eða í sérstökum hópum. Öll kennsla fer fram frá Grundarfirði og eru allir kennarar deildarinnar staðsettir þar. Auk þess eru tveir starfsmenn í framhaldsdeildinni sem aðstoða nemendur á Patreksfirði og halda utan um starfsemina. Nemendur stunda námið að mestu í dreifnámi, með þeim tækjum og tólum sem fyrir hendi eru. Allt námsefni er lagt fyrir nemendur í gegnum námsumsjónarkerfi en þess utan hafa nemendur aðgang að kennurum gegnum Skype, tölvupóst og fjarfundabúnað. Kennarar stýra vinnu nemenda og eru til aðstoðar bæði í hefðbundnum tímum og verefnatímum með þeim leiðum sem fyrir hendi eru. Nám nemenda fer að miklu leyti fram með sjálfstæðri verkefnavinnu, þar sem nemendur vinna einstaklingsverkefni eða hópverkefni, ýmist með nemendum á staðnum eða í Grundarfirði. Nemendur skila öllum verkefnum gegnum námsumsjónarkerfið og flest próf eru tekin þar.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur frá upphafi haft það hlutverk að vera þróunarskóli í breyttum kennsluháttum og nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. Meðal þess sem greinir FSN frá öðrum hefðbundnum framhaldsskólum er að færri fastir tímar eru í stundatöflunni en í flestum öðrum skólum. Til að vega upp á móti færri tímum sækja nemendur svokallaða verkefnatíma. Í verkefnatíkmum getur nemandi nálgast þann kennara er hann telur sig hafa mest not af og unnið sín verkefni undir leiðsögn. Verkefnatímar nýtast einnig nemendum á Patreksfirði sérstaklega vel, þar sem þeir hafa þá aukið aðgengi að kennaranum með MSN eða fjarfundabúnaði.

Framhaldsdeild_10b

Námsferðir til Grundarfjarðar

Reglulegar námsferðir eru farnar til Grundarfjarðar, a.m.k. ein námsferð í hverjum mánuði. Ferðirnar eru mikilvægur hluti af verkefninu, en markmiðið með þeim er að tengja saman nemendur og kennara og gefa nemendum tækifæri til að sækja sér viðbótarþjónustu hjá kennurum sínum. Auk þess hafa nemendur þá tækifæri til að taka þátt í félagslífi í stærra skólaumhverfi. Dagsetningar ferðanna ráðast af viðburðum hjá nemendafélaginu í Grundarfirði þannig að nemendur framhaldsdeildar nái að taka þátt í stærstu viðburðum vetrarins. Ferðatilhögun hefur verið á þann veg að einu sinni í mánuði að loknum hefðbundnum skóladegi er farið með rútu á Brjánslæk og þaðan með Flóabátnum Baldri yfir Breiðarfjörð til Stykkishólms. Í Stykkishólmi eru nemendur sóttir í rútu og keyrðir á farfuglaheimilið í Grundarfirði, sem hefur fengið það hlutverk að vera nokkurs konar heimavist nemenda í námsferðum. Í þrjá daga taka nemendur þátt í hefðbundnum kennslustundum, en geta auk þess nýtt sér þjónustu kennara í verkefnatímum/vinnustofum. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í félagslífinu fá tækifæri til þess. Að lokinni skólaheimsókn er svo farið aftur sömu leið til Patreksfjarðar og hefðbundnir skóladagar taka við fram að næstu ferð.