Framhaldsdeild á Vestfjörðum

Fjölbrautaskóli Snæfellinga – FSN, hóf rekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði haustið 2007. Rekstur deildarinnar er þróunarverkefni til 4 ára. Í framhaldsdeildinni geta nemendur af suðursvæði Vestfjarða stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara í Grundarfirði með aðstoð nútíma upplýsingatækni. Starfsmenn framhaldsdeildar á Patreksfirði veita nemendum leiðsögn á staðnum og halda utan um starfsemina. Nemendafjöldi deildarinnar hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi, eða frá því að vera 12 nemendur haustið 2007 í að vera ríflega 30 nemendur á haustönn 2009. Í nóvember 2009 var gerð sjálfsmatsskýrsla til kynningar á verkefninu, sem þá hafði starfað í tvö  ár. Attentus, mannauður og ráðgjöf gerði úttekt á starfsemi deildarinnar haustið 2010. Lesa má um úttekina hér. Úttekt á framhaldsskóladeild á Patreksfirði skýrsla 30 nóv 2010

Nám og kennsla í framhaldsdeildinni byggir á aðferðum dreifmenntar, en almennt má segja að dreifmennt sé góður kostur til að brúa bil milli landshluta og gera einstaklingum kleift að stunda það nám sem þeir kjósa sér hvar sem þeir eru staddir. Sjálfstæði í námi er oft meira þar sem nemendur vinna oft án beinnar tilsagnar kennara og þurfa því að taka mikla ábyrgð á eigin námi.

Dagleg starfsemi

Námið í framhaldsdeildinni er byggt upp þannig að nemendur eru ýmist hluti af nemendahópum í FSN eða í sérstökum hópum. Öll kennsla fer fram frá Grundarfirði og eru allir kennarar deildarinnar staðsettir þar. Auk þess eru tveir starfsmenn í framhaldsdeildinni sem aðstoða nemendur á Patreksfirði og halda utan um starfsemina. Nemendur stunda námið að mestu í dreifnámi, með þeim tækjum og tólum sem fyrir hendi eru. Allt námsefni er lagt fyrir nemendur í gegnum námsumsjónarkerfi en þess utan hafa nemendur aðgang að kennurum gegnum Skype, tölvupóst og fjarfundabúnað. Kennarar stýra vinnu nemenda og eru til aðstoðar bæði í hefðbundnum tímum og verefnatímum með þeim leiðum sem fyrir hendi eru. Nám nemenda fer að miklu leyti fram með sjálfstæðri verkefnavinnu, þar sem nemendur vinna einstaklingsverkefni eða hópverkefni, ýmist með nemendum á staðnum eða í Grundarfirði. Nemendur skila öllum verkefnum gegnum námsumsjónarkerfið og flest próf eru tekin þar.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur frá upphafi haft það hlutverk að vera þróunarskóli í breyttum kennsluháttum og nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. Meðal þess sem greinir FSN frá öðrum hefðbundnum framhaldsskólum er að færri fastir tímar eru í stundatöflunni en í flestum öðrum skólum. Til að vega upp á móti færri tímum sækja nemendur svokallaða verkefnatíma. Í verkefnatíkmum getur nemandi nálgast þann kennara er hann telur sig hafa mest not af og unnið sín verkefni undir leiðsögn. Verkefnatímar nýtast einnig nemendum á Patreksfirði sérstaklega vel, þar sem þeir hafa þá aukið aðgengi að kennaranum með MSN eða fjarfundabúnaði.

Framhaldsdeild_10b

Námsferðir til Grundarfjarðar

Reglulegar námsferðir eru farnar til Grundarfjarðar, a.m.k. ein námsferð í hverjum mánuði. Ferðirnar eru mikilvægur hluti af verkefninu, en markmiðið með þeim er að tengja saman nemendur og kennara og gefa nemendum tækifæri til að sækja sér viðbótarþjónustu hjá kennurum sínum. Auk þess hafa nemendur þá tækifæri til að taka þátt í félagslífi í stærra skólaumhverfi. Dagsetningar ferðanna ráðast af viðburðum hjá nemendafélaginu í Grundarfirði þannig að nemendur framhaldsdeildar nái að taka þátt í stærstu viðburðum vetrarins. Ferðatilhögun hefur verið á þann veg að einu sinni í mánuði að loknum hefðbundnum skóladegi er farið með rútu á Brjánslæk og þaðan með Flóabátnum Baldri yfir Breiðarfjörð til Stykkishólms. Í Stykkishólmi eru nemendur sóttir í rútu og keyrðir á farfuglaheimilið í Grundarfirði, sem hefur fengið það hlutverk að vera nokkurs konar heimavist nemenda í námsferðum. Í þrjá daga taka nemendur þátt í hefðbundnum kennslustundum, en geta auk þess nýtt sér þjónustu kennara í verkefnatímum/vinnustofum. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í félagslífinu fá tækifæri til þess. Að lokinni skólaheimsókn er svo farið aftur sömu leið til Patreksfjarðar og hefðbundnir skóladagar taka við fram að næstu ferð.

Námsferðir – reglur

FRAMHALDSDEILD FSN – PATREKSFIRÐI

REGLUR FYRIR NÁMSFERÐIR

Eftirfarandi reglur gilda fyrir nemendur sem stunda nám í framhaldsdeild FSN. Við upphaf námsins skulu reglurnar kynntar nemendum og skulu þeir gangast undir að fylgja þeim í einu og öllu í þeim námsferðum sem farnar eru á vegum deildarinnar.

 1. Nemendur skulu kappkosta að vera til sóma hvar sem þeir kunna að koma við í námsferðum sínum.
 2. Dvalarstaður í námsferð er alla jafna gistiheimili í Stykkishólmi.
 3. Ákveðnar reglur gilda á gistiheimilinu. Umsjónarmaður á staðnum og starfsmaður sem er með í ferðinni hafa eftirlit með að reglunum sé fylgt.
 4. Nemendur skulu sækja skóla daglega og dvelja þar yfir daginn.
 5. Nemendur skulu dvelja á dvalarstað frá klukkan 23:00 til klukkan 07:00. Þá skal enginn óviðkomandi vera á staðnum á vegum nemenda. Næðistími er á frá klukkan 00:00 til 07:00 alla virka daga. Nemendur skulu gæta þess sérstaklega að umgangur þeirra þeirra valdi engu ónæði á næðistíma. Nemendur skulu koma beint heim að loknum skólaskemmtunum sem standa lengur en til kl. 23.00.
 6. Nemendur skulu ávallt ganga hljóðlega um dvalarstað og mega aldrei raska ró annarra gesta eða samnemenda með hávaða og illri umgengni.
 7. Öll neysla matar á að fara fram í eldhúsaðstöðu og ganga frá strax að loknum máltíðum.
 8. Öll meðferð áfengra drykkja og annarra vímuefna á dvalarstað sem og á lóð, er stranglega bönnuð. Brot á þessum ákvæðum varða brottrekstur úr framhaldsdeildinni og verður farið fram á að nemandi verði sóttur af forráðamanni svo fljótt sem kostur er. Drukknu fólki er ávallt óheimilt að vera á á vegum nemenda á dvalarstað. Reykingar eru bannaðar innanhúss á dvalarstað.
 9. Nemendur skulu halda herbergjum sínum hreinum og snyrtilegum. Nemendur skulu ganga vel um hús, lóð og umhverfi dvalarstaðar.
 10. Nemendur bera fulla ábyrgð á hegðun sinni á dvalarstað. Skemmdir á húsi eða búnaði skal tilkynna umsjónarmanni eða deildarstjóra framhaldsdeildarinnar tafarlaust. Nemendum ber að bæta skemmdir að fullu. Skemmdir, sem unnar eru vísvitandi eða ekki er tilkynnt um, geta valdið útilokun frá námsferðum.
 11. Nemendur skulu þekkja skólareglur FSN um umgengi og hegðun í skólanum og fylgja þeim meðan á námsdvöl stendur. Nemendur skulu fylgja þeim reglum um tölvunotkun sem gilda í skólanum.
 12. Nemendur geta keypt hádegismat í mötuneyti FSN og þar fá þeir einnig hafragraut í upphafi skóladags. Kvöldverður er á ábyrgð hvers og eins.
 13. Nemandi sem hefur leyfi foreldra til að dveljast utan dvalarstaðar í námsferð eða til að verða eftir á dvalarstað þegar námsferð lýkur skal skila skriflegu leyfisbréfi frá foreldri sem fylgt er eftir með símtali, leyfisbréfið skal afhent við upphaf námsferðar.
 14. Brjóti nemendur þessar reglur mun brotið verða tilkynnt til skólameistara tafarlaust og tekur skólameistari þá ákvörðun um viðurlög. Viðurlög eru áminning, útilokun frá námsferðum eða brottrekstur úr skóla um ákveðinn tíma. Sinni nemandi ekki endurtekinni áminningu getur orðið um að ræða endanlega brottvísun frá námi. Útilokun frá námsferðum eða brottvísun er í höndum skólameistara og skal vera skrifleg. Sérhver nemandi getur kært annan nemanda fyrir brot á reglum til fararstjóra, deildarstjóra eða beint til skólameistara.
Uppfært 31.10.2018 (HH)