Námskeið – Hugræn atferlismeðferð

Í vetur mun skólinn bjóða upp á námskeið á skólatíma hjá sálfræðingi þar sem nemendum gefst kostur á að læra að takast á við erfiðar tilfinningar með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Námskeiðið hefst 23.september
Erfiðleikar og vanlíðan: Hvað er hægt að gera?
Á námskeiðinu verða kenndar aðferðir til að takast á við tilfinningalegan vanda með áherslu á þunglyndis og kvíðaeinkenni. Kennslan verður á námskeiðsformi og byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og verður í formi fræðslu og heimaverkefna.
Meginmarkmið námskeiðsins er að þátttakendur læri og þjálfist í því að takast á við tilfinningar sínar með aðferðum HAM. Áhersla er lögð á fræðslu um samspil tilfinninga, hugsunar og hegðunar. Aðferðirnar sem kenndar verða eru almenns eðlis og geta því gagnast nemendum sem grunnur í því að takast á við neikvæðar tilfinningar. Sérstök áhersla verður þó lögð á mildan kvíða og depurð.
Miðað er við að nemendur hitti sálfræðinginn stuttlega fyrir námskeiðið þar upplýsingar um líðan eru ræddar. Námskeiðið sjálft er 3 skipti 90 mínútur í senn. Í lok námskeiðs hitta nemendur svo sálfræðinginn einslega.
* 30 mín. viðtal við hvern og einn þar sem lagt er mat á líðan.
* 3 x 90 mín. Fyrirlestrar og æfingar
* 30 mín. viðtal við hvern og einn þar sem lagt er mat á líðan.
Umsjónarmaður námskeiðs verður Emil Einarsson sálfræðingur. Frekari upplýsingar um námskeiði má nálgast hjá Birtu

Umsóknir berist til Birtu námsráðgjafa fyrir 21.september (birta@fsn.is)

Umsagnir

Í næstu viku munu nemendur Fjölbrautaskóla Snæfellinga fá umsagnir um stöðu sína í öllum áföngum.  Þetta verður fyrsta umsögn af þremur á þessari önn en umsögn getur verið þrennskonar.

            A – Vinnubrögð mjög góð og öllum verkefnum skilað á viðeigandi hátt.

            B – Vinnubrögð góð og verkefnaskil í meðallagi. Þú getur gert betur.

            C – Vinnubrögð ófullnægjandi. Þú ert í fallhættu ef þú tekur þig ekki á.

Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla skal námsmat byggja á margvíslegum námsmatsaðferðum og taka til allra þátta námsins.  Námsmat í FSN byggir á leiðsagnarmati og eru formleg próf í lok anna ekki til staðar. Vinna nemenda er metin jafnóðum allan námstímann og fá þeir auk umsagnanna þriggja lokaeinkunn í áfanganum sem byggir á einkunnum fyrir verkefnavinnu nemandans yfir önnina.