Það er eðlilegt að mikil og áberandi umfjöllun eins og hefur verið síðustu daga um veiruna COVID-19 hafi talsverð áhrif á það hvernig okkur líður. Það er eðlilegt að fólk upplifi ótta og óöryggi þegar svona aðstæður koma upp í samfélaginu því óvissustigið er nokkuð hátt og inngrip stjórnvalda eru og munu að öllum líkindum hafa nokkur áhrif á daglegt líf okkar næstu vikurnar og lita umræðuna í samfélaginu.
Eins og staðan er í dag er lögð áhersla á að hægja á dreifingu veirunnar á landinu. Hún virðist vera mjög smitandi en sérfræðingar leggja þó áherslu á að flestir upplifi eingöngu væg einkenni og langflestir jafni sig. Helst er það eldra fólk (eldra en 50 ára) og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma sem þurfa að fara sérstaklega varlega. Nánari leiðbeiningar fyrir einstaklinga í áhættuhóp er hægt að nálgast hér.
Ráðleggingar stjórnvalda á næstu vikum munu hafa áhrif á marga einstaklinga og þeirra mun verða vart á ýmsum sviðum samfélagins. Sem dæmi þá hefur fólk verið beðið um að fara í 14 daga sóttkví heima hjá sér, viðburðir hafa verið felldir niður og líklegt að einhverjar lokanir verði eða breytt starfsemi útfærð með einhverjum hætti eins og með breyttum opnunartíma, fjarþjónustu, fjarkennslu og fjarvinnu. Í alþjóðlegu samhengi virðast stjórnvöld vera að bregðast við með svipuðum hætti.
Samtakamáttur
Þessar breytingar sem við stöndum frammi fyrir þessa dagana reyna á samtakamátt okkar sem samfélags. Við þurfum að hafa það í huga að skilaboðin sem við fáum munu taka einhverjum breytingum og við þurfum að vera reiðubúin að gera það sem við getum til að styðja við leiðbeiningar stjórnvalda og sýna þannig samfélagslega ábyrgð.
Sum tilmæli stjórnvalda munu snerta okkur persónulega og gera kröfu um að við gerum breytingar á dagskránni okkar og aðlögum okkur að nýjum aðstæðum. Sumir gætu upplifað slíkar breytingar sem óþægilegar, hamlandi eða truflandi. Einnig er eðlilegt að við gætum upplifað lokanir eða breytingar á ferðum eða dagskrá á þann hátt að við verðum hrædd eða óörugg.
Mikilvægt er að við nálgumst þessar breytingar saman og förum eftir tilmælum stjórnvalda með opnum hug og jákvæðu hugarfari.
Óvissuástand, hvaða áhrif hefur það á fólk?
Flestir eru þannig að við upplifum öryggi og ró þegar við vitum hvað er framundan. Þegar hlutirnir eru eins og venjulega þá náum við að slaka á. Í slíkum aðstæðum eigum við auðvelt með að sjá hvað er framundan og hvernig við eigum að bregðast við.
Það er líka þannig að það er algengt að fólk upplifi sterkar tilfinningar eins og ótta og óöryggi þegar mikil óvissa er í spilunum. Dæmi um það sem getur valdið óvissu er þegar við erum í nýjum aðstæðum, þegar við upplifum að aðstæður sem við erum í séu hættulegar, þegar aðstæður breytast dag frá degi og þegar við þurfum að læra að hegða okkur á nýjan hátt og breyta út af því sem við erum vön. Það er eðlilegt að upplifa ótta og óöryggi þegar við upplifum slíkar aðstæður og miklar breytingar verða á daglegu lífi okkar.
Tilfinningar og hugsanir
Í slíkum óvissuaðstæðum upplifir fólk gjarnan kvíða, óöryggi og pirring svo algeng viðbrögð séu nefnd. Þegar við upplifum slíkar tilfinningar fer hugur okkar líka á flug og við förum jafnvel að velta fyrir okkur mögulegum og ómögulegum afleiðingum. Fólk á það til að giska á niðurstöður og ímynda sér aðstæður eða máta sig við neikvæða útkomu. Slíkur vítahringur eykur oft óþægilega upplifun okkar og óöryggi. Það er því mikilvægt að staldra aðeins við nokkur atriði sem gott getur verið að hafa í huga í slíkum aðstæðum. Með þeim hætti er oft hægt að draga úr ótta og óöryggi og nálgast viðfangsefnið, sem vissulega er snúið, með uppbyggilegum hætti.
Gott að hafa í huga:
- Yfirvöld eru með markvissum hætti að bregðast við veirusmiti á landinu. Fylgst er vel með og viðbragðsaðilar eru með mikinn viðbúnað.
- Áhersla er lögð á að hægja á veirusmiti eins og kostur er.
- Mikilvægast er að þvo sér vel og oft um hendurnar, með vatni og sápu eða handspritti. Svo er góð regla að forðast náin samskipti við aðra sem eru með einkenni kvefs, eins og hnerra eða hósta. Ef þú þarft að hósta eða hnerra er betra að gera það í olnbogann en ekki í hendurnar eða út í loftið.
- Umræðan virðist vera mikil í samfélaginu og mikilvægt að við leitum okkur upplýsinga frá opinberum aðilum svo sem Embætti landlæknis og tölum með uppbyggilegum hætti við hvert annað. Enginn er að upplifa stöðuna eins og ýmislegt sem getur farið í gegnum hugann bæði rökrétt og órökrétt.
- Það er mikilvægt að hafa í huga að í sumum fjölskyldum eru veikir einstaklingar sem hafa raunverulegar áhyggjur. Okkar viðbrögð hafa mikil áhrif á líðan þeirra og öryggistilfinningu. Höfum það í huga þegar við tjáum okkur á samfélagsmiðlum og í tengslum við almenn viðbrögð okkar.
- Það er gríðarlega mikilvægt að á næstu vikum reynum við öll að halda ró okkar, förum eftir ráðleggingum og förum ekki fram úr okkur í almennri umræðu.
- Tölum við fjölskyldu okkar og vini. Sinnum okkur sjálfum og vinum okkar og reynum að huga að uppbyggilegum hlutum í kringum okkur.
- Í hlaðvarpinu Dótakassinn er fjallað um ýmis ráð við því þegar aðstæður okkar breytast og hvernig við getum brugðist við með uppbyggilegum hætti við óvæntum aðstæðum eða sterkum tilfinningum. Dótakassinn: http://dotakassinn.buzzsprout.com/
kveðja
Bóas Valdórsson sálfræðingur Menntaskólans við Hamrahlíð