Reglulegar námsferðir eru farnar til Grundarfjarðar og koma nemendur a.m.k. 2-3 á önn og geta komið oftar. Ferðirnar eru mikilvægur hluti af verkefninu, en markmiðið með þeim er að tengja saman nemendur og kennara og gefa nemendum tækifæri til að sækja sér viðbótarþjónustu hjá kennurum sínum. Auk þess hafa nemendur þá tækifæri til að taka þátt í félagslífi í stærra skólaumhverfi. Dagsetningar ferðanna ráðast af viðburðum hjá nemendafélaginu í Grundarfirði þannig að nemendur framhaldsdeildar nái að taka þátt í stærstu viðburðum vetrarins. Ferðatilhögun hefur verið á þann veg að einu sinni í mánuði að loknum hefðbundnum skóladegi er farið með rútu á Brjánslæk og þaðan með Flóabátnum Baldri yfir Breiðarfjörð til Stykkishólms.Nemendur gist á gistiheimili í Grundarfirði. Í þrjá daga taka nemendur þátt í hefðbundnum kennslustundum, en geta auk þess nýtt sér þjónustu kennara í verkefnatímum/vinnustofum. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í félagslífinu fá tækifæri til þess. Að lokinni skólaheimsókn er svo farið aftur sömu leið til Patreksfjarðar og hefðbundnir skóladagar taka við fram að næstu ferð.
Síðast yfirfarið 18.01.2024