Námsmat og einkunnir

Námsmat í Fjölbrautaskóla Snæfellinga er ólíkt því sem algengast er í framhaldsskólum að því leyti að stærsti hluti námsmatsins er símat en lítið er um lokapróf eins og hefðbundið er í flestum greinum. Töluverð umræða hefur farið fram innan skólans um breytingar á námsmati og hafa margir kennarar sótt ráðstefnur um námsmat á vegum Samtaka um skólaþróun, bæði í ágúst 2006 og september 2007. Auk þess hafa þrír kennarar skólans sótt námskeið á meistarastigi um sveigjanlega kennsluhætti á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands skólaárið 2007-2008, þar sem töluvert er fjallað um námsmat, og námskeið á meistarastigi um námsmat á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands veturinn 2008-2009. Í framhaldi af umræðunni var ákveðið að leita til King‘s College í London og fræðimanna þar til að halda námskeið fyrir kennarahópinn í FSN. Í King‘s College hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á námsmati og námskeiðið sem þeir héldu fyrir FSN var tveggja daga námskeið í lok maí 2008 þar sem áherslan var á leiðsagnarmat (formative assessment). Í kjölfarið á því hafa verið gerðar breytingar á námsmati í skólanum, fyrst og fremst frá lokaprófum til leiðsagnarmats, og unnið var að þróunarverkefni um leiðsagnarmat veturinn 2008/2009.

Einkenni leiðsagnarmats er að nemandinn er þátttakandi í námsmatsferlinu og leitast er við að gera námsmatið að órjúfanlegum hluta af námi hans. Matið þarf því að vera innbyggt í kennsluna og kennarar gera ráð fyrir námsmati um leið og kennsla er undirbúin. Megintilgangur leiðsagnarmats er að gera nemendur meðvitaða um það sem þeir læra, hvernig þeir læra og til hvers er ætlast af þeim. Leiðsagnarmat byggist á góðri endurgjöf frá kennurum sem nemendur geta nýtt sér til að verða meðvitaðir um eigin námsframvindu, skýrum markmiðum og matsviðmiðum til að nemendur geti vitað til hvers er ætlast af þeim. Nemendur fá tækifæri til að meta eigið nám með sjálfsmati svo þeir skilji tilganginn með námi sínu og hvað þarf til að ná árangri.

Einkunnir 

Nemendur fá kennsluáætlanir í hverjum áfanga þar sem meðal annars er tilgreint hvernig námsmati í áfanganum skuli háttað. Kennarinn útskýrir námsmatið fyrir nemendum en mikilvægt er að öllum sé ljóst til hvers er ætlast.

  • Nemendur fá umsögn tvisvar sinnum yfir önnina. Þessar umsagnir eiga að gefa nemendum, foreldrum/forráðamönnum og umsjónarkennurum hugmynd um stöðu nemandans í námi. 
  • Við annarlok er námsárangur metinn til einkunnar.
  • Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 – 10. Í einstaka áfanga eru gefnar einkunnirnar S (staðist), L (lokið) og F (fall) í stað talna ef ekki reynist unnt að gefa einkunn í tölum. Einkunnina H (hættur) fá þeir sem hætt hafa í áfanga eftir að leyfilegur frestur er liðinn en einkunnina F fá þeir sem ljúka ekki áfanga og/eða fara ekki í próf. Einkunnin M (metið) kemur einstaka sinnum fyrir í námsferli þeirra sem fengið hafa nám metið úr öðrum skólum.
  • Til að standast áfanga þarf nemandi að fá einkunnina 4,5 .
  • Nemenda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í einum lokaáfanga. Einkunnin 4 gefur ekki einingar.
  • Ef fall í einum áfanga kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast með lokapróf má hann taka próf í þeim áfanga sem gildir 100%. Skólanum er heimilt að innheimta gjald fyrir slíkt próf.
  • Verði nemandi uppvís að misferli í verkefnavinnu eða prófi fær hann einkunnina 0 fyrir þann hluta. Við endurtekin brot í sama áfanganum er nemandanum vísað úr áfanganum. Skólavist nemandans er í hættu við síendurtekin brot. Ef einn nemandi heimilar öðrum að endurrita verkefni sem hann hefur unnið fá báðir 0 fyrir verkefnið. Sjá reglur um meðferð heimilda á heimasíðu skólans.
  • Í kennsluáætlun fá nemendur upplýsingar um yfirferð og skiladaga stærri verkefna. Nemendum ber að skila öllum verkefnum á tilsettum tíma.
  • Fjarveru úr prófi vegna veikinda þarf að tilkynna á prófdegi. Læknisvottorði þarf að skila við upphaf sjúkraprófs.
  • Til að ljúka námi á ákveðinni námsbraut þarf nemandi að hafa lokið þeim einingafjölda sem tilgreindur er í námskrá.
  • Í annarlok fá nemendur tækifæri til þess að leita skýringa á námsmati.

 

 

 

 

 

 

Áfanganúmer

Á prófskírteini eru áfangar auðkenndir með skammstöfun námsgreinar, tölu, tveimur bókstöfum og tveimur tölum í lokin. Dæmi um slíkt er ÍSLE2MB05. ÍSLE merkir að þetta er áfangi í íslensku, 2 stendur fyrir það að áfanginn sé á öðru þrepi, MB stendur fyrir innihald áfangans og 05 er einingafjöldinn. Einingar eru framhaldsskólaeiningar skv. lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Áföngum er skipt upp á þrjú þrep, fyrsta, annað og þriðja og þurfa nemendur að fara upp á þriðja þrep í mörgum námsgreinum til að geta lokið stúdentsprófi.

 

Einkunnir

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 5 táknar að 45% til 54% námsmarkmiða hafi náðst, einkunnin 6 táknar að nemandi hafi náð 55% til 64% markmiða o.s.frv.

Lágmarkseinkunn er 5. Heimilt er þó að brautskrá nemanda með einkunnina 4 í einum áfanga sem gefur þá ekki einingar. Áfangi sem lokið er með einkunninni 4 getur ekki vera undanfari annarra áfanga hjá nemandanum.

Einkunnin S þýðir að nemandi hefur staðist áfanga án prófs og M táknar áfanga eða námskeið sem metin eru til eininga þótt kennsla hafi farið fram annars staðar en við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Stjörnumerktir áfangar á prófskírteini eru áfangar sem hafa verið metnir til eininga.

 

Síðast uppfært 17.09.2020