Landbúnaðarháskóli Íslands og Fjölbrautaskóli Snæfellinga standa saman að námsbraut þar sem nemendur hafa kost á að útskrifast með stúdentspróf frá FSN og búfræðipróf frá LbhÍ. Búfræðilínu á stúdentsbraut er ætlað að veita nemendum undirbúning undir háskólanám í náttúru- og búvísindum og tekur að jafnaði 4 ár. Nemendur taka tvö fyrstu árin (4 annir) í Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem megináherslan er á kjarnagreinar til stúdentsprófs og valdar greinar á sviði raungreina. Seinni tvö árin taka nemendur við búfræðibraut Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Nemendur brautskrást með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga og búfræðipróf frá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Val á nemendum á brautina byggir á því að nemendur hafi reynslu af störfum í landbúnaði og uppfylli önnur þau inntökuskilyrði sem kveðið er á um fyrir búfræðinám í LbhÍ á Hvanneyri.
Hæfniviðmið:
Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að...
- nota almenna þekkingu á sviði náttúru- og raunvísinda.
- beita viðurkenndum vísindalegum aðferðum við greiningu viðfangsefna, öflun upplýsinga, mat, úrvinnslu og túlkun (m.a. læsi á tölfræðilegar upplýsingar).
- fjalla um og taka þátt í upplýstri umræðu um ýmis mál er tengjast samspili vísinda, tækni og samfélags.
- lesa fræðitexta á íslensku og ensku.
- hafi þekkingu og færni til að takast á við búrekstur og alhliða landbúnaðarstörf, ekki síst á sviði rekstrar, bútækni, jarð- og búfjárræktar
- takast á við frekara nám á sviði almennra náttúruvísinda, búvísinda og dýralækninga
Brautarlýsing:
Nemendur sem hafa lokið íslensku, ensku, dönsku og/eða stærðfræði í grunnskóla með einkunnina C eða C+ hefja nám í eftirtöldum áföngum á 1. þrepi: ÍSLE1UN05, ENSK1BY05, DANS1GR05 og STÆR1GR05