Vorið 2005 hófst undirbúningur að þróunaráfanganum SNÆ með heimsókn kennara frá Fredrika Bremer skólanum í Haninge í Svíþjóð og Kainuun Ammattiopisto í Kajaani í Finnlandi. Ákveðið var að fara í þriggja ára samstarf með styrkjum frá Nord Plus og þróunarsjóði framhaldsskóla. Við hér í FSN ákváðum að búa til nýjan áfanga utan um samstarfið þar sem það bauð upp á svo ótal marga möguleika en þó sérstaklega samþættingu námsgreina. Áfanginn hlaut nafnið SNÆ og ákveðið var að hann nýtti sér möguleika og sérstöðu skólans í kennsluháttum og kennsluaðferðum með því að samþætta nokkrar námsgreinar innan skólans í einn valáfanga. Greinar eins og íslensku, upplýsingatækni, myndlist, leiklist, margmiðlun, félagsfræði, sögu og lífsleikni.
Unnið var út frá þemanu goðsagnir í okkar nánasta umhverfi og var ætlunin að færa sig úr gamla tímanum yfir í nútímann á þremur árum. Hugsunin var að skoða sameiginlegan menningararf Norðurlandanna frá fortíð til nútíðar. Áfanginn var kenndur allan veturinn og gaf fjórar einingar á ári yfir þrjú skólaár eða samtals tólf einingar. Frá íslenskunni tókum við m.a. þjóðsögur, sagnir og ljóð. Úr félagsfræðinni og sögu m.a. menningu, siði og samskipti. Lífsleikni, leiklist og myndlist hjálpuðu okkur við ýmsa framsetningu efnisins sem og upplýsingatækni og margmiðlun.
- Markmiðin voru að nemendur skynjuðu að landamærin milli námsgreina eru tilbúin og að með samþættingu sem þessari öðlist þau aukna víðsýni.
- Markmiðið var að efla tengsl milli þessara þjóða, vinna með sama þema og að nemendaskipti færu fram á hverju ári árin þrjú í tengslum við þessa vinnu.
Fyrsta árið var unnið með þemað landnám og landnámssögur. Nemendur lögðu upp í ferð til fyrirheitna landsins Íslands og gerðu einnig margmiðlunarsýningu úr Bárðar sögu. Við fengum styrk frá Menningarsjóði Vesturlands til að setja sýninguna upp og fara með hana til Svíþjóðar og má lesa nánar um þá vinnu hér. Vorið 2007 fórum við í heimsókn til samstarfsskóla okkar í Svíþjóð þar sem nemendur unnu að sameiginlegum verkefnum tengdum þemanu. Nánari umfjöllun um skólaárið 2006-2007 má sjá hér.
Skólaárið 2007-2008 unnum við með þjóðsögur tengdar Snæfellsnesi og finnska sagnabálkinn Kalevala og gerðu nemendur margvísleg verkefni úr þeim. Í apríl 2008 heimsóttum við vinaskóla okkar í Finnlandi þar sem nemendur unnu í sameiningu með þema ársins en þó sérstaklega með Kalevala. Skýrsla um starfið okkar er hér.
Skólaárið 2008-2009 var ákveðið að vinna með hafið í marvíslegum verkefnum, jafnframt því að undirbúa heimsókn samstarfsskóla okkar í Svíþjóð og Finnlandi. Skýrslu um árið má finna hér.
Mat á verkefninu
Það er samdóma álit okkar að þessi áfangi hafi verið einstaklega lærdómsríkur og áhugaverður. Svona samvinna krefst mikils undirbúnings og góðrar skipulagningar af hálfu kennara. Það að kenna áfanga án stýrandi námsbóka er erfitt en gefur um leið mikið frelsi. Svona áfangi gefur möguleika á samvinnu kennara í stað þess að hver og einn vinni í sínu horni sem gefur tækifæri á skoðanaskiptum, því að skiptast á hugmyndum og stuðningi við hvert annað í starfi.
Vinna við mótun áfangans gekk mjög vel og var unnin í náinni samvinnu við nemendur sem þótti það mjög gaman og fræðandi að fá að taka þátt í undirbúningu og skipulagningu verkefna. Samþætting námsgreina kom mjög vel út og er það álit okkar að gera mætti meira af því. Nemendur tengdust mjög vel innbyrðis sem og nemendum frá samstarfsskólum okkar og eru það tengsl sem munu seint rofna. Þau áttuðu sig á skyldleika landanna en jafnframt því hvað það er sem skilur þau að.
Í svona stóru samsstarfsverkni þar sem þrjú ólík lönd vinna svona lengi saman hefði verið gott að skipa einn verkefnisstjóra yfir verkefninu í heild. Það hefði einnig verið gott að hafa meiri fjármuni til umráða.
Sólrún Guðjónsdóttir, Berglind Axelsdóttir og Hrafnhildur Hallvarðsdóttir – kennarar í FSN