Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Samkvæmt reglugerð nr. 654/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku skulu skólarnir setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Reglugerð þessi er sett með heimild í 35. grein laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Móttökuáætlun Fjölbrautaskóla Snæfellinga byggist á þessari reglugerð svo og sérstöðu skólans.

Í reglugerðinni kveður á um rétt nemenda framhaldsskóla, sem hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa dvalið langdvölum erlendis og notið lítillar íslenskukennslu, til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Móttökuáætlun er ætlað að styðja við nám þessara nemenda og að velja námsefni við hæfi  í samstarfi við námsráðgjafa. Markmið öflugs stoðkerfis við nemendur með annað móðurmál en íslensku er fyrst og fremst að koma til móts við þá þannig að þeir nái árangri í námi og geti sýnt hvað í þeim býr. Með áætluninni er einnig reynt að tryggja að upplýsingum um nýtt námsefni sé komið á framfæri til kennara og stoðaðila.

Móttökuáætlun FSN tekur mið af bakgrunni nemenda, tungumálafærni og annarri námsfærni ásamt þeim úrræðum sem skólinn getur veitt. Í upphafi skólaárs eru þessir  þættir metnir.

Skólastjórnendur bera ábyrgð á innritun og móttöku nýrra nemenda og ber þeim að tilkynna námsráðgjafa um innritun þeirra. Áður en til innritunar nemenda af erlendum uppruna kemur verður dvalarleyfi að liggja fyrir. Æskilegt er að fá upplýsingar um fyrri skólagöngu, bæði frá heimalandi og/eða íslenskum skólum.

Námsframboð skólans takmarkar val nemandans en ÍSAN (íslenska fyrir nemendur með íslensku sem annað tungumál) verður í boði ásamt heimanámsaðstoð og ráðgjöf. Í ÍSAN áföngum er námið sniðið að þörfum hvers nemanda.  Að öðru leyti verður að velja námsáfanga sem eru kenndir á viðkomandi önn.

Samkvæmt Aðalnámskrá framahaldsskóla frá 2009 er miðað við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein óski þeir þess. Framhaldsskólar geta boðið upp á slíkt nám í staðnámi eða fjarnámi eða samþykkt að meta nám sem stundað er annars staðar.  Ef slíkt nám er ekki í boði á vegum skólans mun stafsfólk FSN aðstoða nemandann eftir föngum við gagnasöfn, bókasöfn og annað það sem veitir nemandanum aðgang að kennslu í eigin móðurmáli.

 Móttökuferlið:

Upplýsingagjöf og upplýsingaöflun

  • Formlegt viðtal fer fram í þeim skóla sem nemandi óskar eftir að stunda nám í.
  • Þegar viðtalið fer fram er æskilegt að skólastjóri, námsráðgjafi og túlkur séu viðstaddir sé þess þörf, svo þeir kynnist bakgrunni nemandans og foreldrum/forráðamönnum sem fyrst.
  • Farið er í  kynnisferð með nemanda, forráðamönnum og túlki um skólann og allt það húsnæði sem notað er við kennslu. Veita  þarf almennar upplýsingum um skólann sjálfan eins og hvar er að finna inngang, fatahengi, snyrtingar og hvar íþróttaiðkun fer fram.
  • Nemandinn fær stundaskrá, bókalista og upplýsingar um  hádegismat og aðra þjónustu.
  • Forráðamaður fær upplýsingar um  kennslufyrirkomulag skólans og þátt tölva í því.
  • Forráðamenn fá afhent skóladagatal, upplýsingar um hvernig eigi að tilkynna forföll og biðja um frí.  Auk þess er þeim kynnt heimasíða skólans www.fsn.is þar sem hægt er að sjá símanúmer, netföng, viðtalstíma umsjónarkennara, námsráðgjafa  og annarra starfsmanna.
  • Leitast er við eins og unnt er að þessar upplýsingar séu á móðurmáli forráðamanna og nemenda.

 Upplýsingar fyrir skólann um bakgrunn nemanda og aðstæður forráðamanna

  • Fá nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldu/forráðamenn nemandans t.d. tungumálafærni og lengd búsetu á landinu.
  • Gagnlegt gæti verið að fá upplýsingar um áhugamál nemandans.
  • Fá gögn frá fyrri skóla innlendum eða erlendum.
  • Skoða möguleika á að sækja um undanþágu frá kennslu í ákveðnum fögum t.d. þriðja tungumáli.
  • Þjónusta vegna fötlunar eða veikinda.
  • Námsmat getur verið fjölbreytt, t.d. munnleg próf, möppumat, frammistöðumat og gátlistar sem lagðir eru fyrir reglulega í samræmi við sett markmið.
  • Góð samvinna skólastjórnenda, námsráðgjafa og þeirra kennara er koma að kennslu nemandans er lykillinn að skilvirku námi.

 Stoðkerfi fyrir nemendur af erlendum uppruna

Innan skólans eru aðal stuðningsaðilar nemenda sem hafa annað móðurmál en íslensku námsráðgjafi, umsjónarkennari, íslenskukennari og/eða stuðningskennari. Æskilegt er, að innan skólans sé nemandanum valinn sérstakur stuðningsnemandi ,,mentor“.  Hlutverk stuðningsnemanda er m.a. að styrkja félagslega aðlögun nemandans til að  rjúfa mögulega félagslega einangrun.