Fjölbrautaskóli Snæfellinga fjárfesti í desember 2018 í fjarkennsluvélmennum, svokölluðum Fjarverum, til notkunar í skólanum. Búnaðurinn er frekar nýstárlegur en sambærilegur hefur verið notaður í Háskólanum á Akureyri. Menntaskólinn á Tröllaskaga var einnig að fjárfesta í Fjarverum og munu skólarnir vera í samvinnu um þetta erkefni og miðla hugmyndum og reynslu á milli sín.
Búnaðurinn er af gerðinni Beam og er nokkurskonar vélmenni á hjólum. Sá sem notar búnaðinn getur setið hvar sem er í heiminum við tölvu og andlit hans sést á skjánum á búnaðinum. Viðkomandi getur fært Fjarveruna innan veggja skólans og verið í kennslustundum ásamt því að geta talað við fólk sem á vegi hans verður. Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari var mjög ánægð með þennan búnað þegar hún var að útskýra málin fyrir fréttaritara Skessuhorns.
„Við í Fjölbrautaskóla Snæfellinga erum til dæmis með kennara sem er búsettur í Borgarnesi. Kennarinn getur núna setið heima hjá sér og leiðbeint nemendum í gegnum þennan búnað. Kennarinn getur fært sig á milli borða og þess háttar,“ útskýrir Hrafnhildur. „Einnig erum við með framhaldsdeild á Patreksfirði en nemendur þar munu njóta góðs af þessum búnaði,“ bætir hún við. Efnt hefur verið til samkeppni innan veggja skólans um nöfn á þessum Fjarverum en komið hafa tillögur eins og Mars og Venus, R2D2 og C3PO svo eitthvað sé nefnt. Hvaða nöfn þessar Fjarverur hljóta á eftir að koma í ljós en á meðan eiga þeir eftir að bæta aðbúnað nemenda og kennara við skólann til mikilli muna og má eiginlega segja að búnaðurinn sé byltingarkenndur.
FSN gefur sig út fyrir að vera framsækinn framhaldsskóli og hefur skólinn verið leiðandi í breyttum kennsluháttum með því að nýta sér upplýsingatækni í skólastarfi og það má með sanni segja að með þessari viðbót sé skólinn að standa undir þeim einkunnarorðum.