Tuttugu ára afmæli Fjölbrautaskóla Snæfellinga 30.ágúst 2024

Fjölbrautaskóli Snæfellinga fagnaði 20 ára afmæli sínu með veglegri hátíð 30.ágúst síðastliðinn en skólinn var settur fyrst þennan sama dag fyrir 20 árum. Afmælið hófst strax um morguninn þegar nemendur og starfsfólk mættu í skólann en opið hús var í FSN frá klukkan 8:30-12:00

Fánar voru dregnir að húni og skólinn var skreyttur. Þegar komið var inn í anddyri var myndasýning á stórum sjónvarpsskjá. Þar mátti sjá gamla bekkjarfélaga, kennara, viðburði og samkomur sem hafa mótað sögu skólans í þessi tuttugu ár sem hann hefur starfað. Þessi myndasýning vakti mikla athygli allra, bæði nemenda og starfsfólks og gesta sem komu í opið hús skólans og það var haft á orði að sumir hefðu minna hár í dag og jafnvel öðruvísi á litinn.

Spjöld um sögu FSN voru komin upp á vegg í anddyri skólans en þau munu hanga áfram og skilti á lóðina koma síðar. Teikningar af hugmyndavinnu við upphaf skólans voru á veggjum en þau eru afrakstur af vinnu undirbúningshópa sem voru skipaðir 2004, en í þeim sátu verðandi nemendur skólans  og hópur fólks úr nærsamfélaginu,   Nemendum grunnskóla og leikskóla var séstaklega boðið klukkan 9:30-11:30.  Poppvél var á staðnum og nemendur buðu upp á skúffuköku og mjólk. Nemendur og kennarar voru með ýmsar uppákomur í kennslurými. T.d. mátti taka þátt í krufningu, spila heimsmarkmiðaspil,  fylgjast með mælingu á blóðsykri, taka þátt í stærðfræðiþrautum og fylgjast með ýmsu skemmtilegu í FAB LAB smiðju skólans.

Hátíðardagskrá hófst síðan klukkan 14.  Hólmfríður Friðjónsdóttir þýskukennari, lék á flygil skólans á meðan gestir gengu í hús. Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, skólameistri bauð gesti velkomna, og kynnti veislustjórann Gísla Pálsson íþrótta- og lýðheilsukennara skólans sem stýrði dagskránni af einskærri snilld. Á dagskránni voru bæði ávörp og tónlistarflutningur.

Fyrstur flutti ávarp Sturla Böðvarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Stykkishólmi.  Sturla var þingmaður kjördæmisins þegar ákvörðun var tekin um að stofna FSN og tók fyrstu skóflustunguna þann 16. desember 2003.

Næsta ávarp var flutt af Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra í Grundarfirði en Björg er jafnframt formaður skólanefndar. Björg hefur setið í skólanefnd frá stofnun skólans og tók virkan þátt í undirbúningsferli við stofnun hans. Björg situr í stjórn Jeratúns ehf, ásamt Kristni Jónassyni bæjarstjóra Snæfellsbæjar og Jakobi Björgvini Sigríðarsyni Jakobssyni. Í tilefni af afmæli skólans færðu bæjarstjórarnir á Norðanverðu Snæfellsnesi skólanum gjöf að andvirði 2.000. 000 milljóna króna.

Næstur á svið var Davíð Svanur Hafþórsson en hann útskrifaðist frá FSN síðastliðið vor.  Davíð keppti fyrir hönd nemendafélags FSN í söngkeppni framhaldsskólana síðastliðinn vetur og mætti í afmælið og tók lagið fyrir gesti.

Þá steig  Lárus Ástmar Hannesson í pontu   og var rödd foreldris nemenda í FSN en Lárus á fjögur börn sem öll hafa gengið í FSN.

Jón Bjarnason fyrrverandi alþingismaður og fyrrverandi ráðherra steig í pontu og rakti söguna að aðdraganda stofnunar FSN og aðkomu þing- og heimamanna að því. 

Ísak Hilmarsson sem útskrifaðist af raungreina- og félagsfræðibraut í desember 2007, talaði sem fulltrúi eldri nemenda en Ísak var í fyrsta árganginum sem hóf nám við FSN strax að loknum grunnskóla.

Næst steig í pontu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, en hún var menntamálaráðherra þegar skólinn var stofnaður og flutti ávarp við vígslu skólans. Það var því sérstök ánægja fyrir Þorgerði að sjá að barnið hafi vaxið og dafnað vel.

Á eftir ræðu Þorgerðar, flutti Davíð Svanur okkur annað tónlistaratriði og stóð sig með snilld eins og áður.

Það er ekki nóg að hafa skólabyggingu til þess að góður skóli verði til,  í honum þarf að vera gott starfsfólk. Við skólann starfa sex starfsmenn sem hafa starfað við skólann frá upphafi. Það eru þau Ólafur Tryggvason umsjónarmaður fasteigna, Una Ýr Jörundsdóttir, Sólrún  Guðjónsdóttir sögukennari og núverandi aðstoðarskólameistari, Sigríður Guðbjörg Arnadóttir deildastjóri starfsbrautar, Hólmfríður Friðjónsdóttir þýskukennari og Agnar  Guðmundsson kerfisstjóri. Þessi ágæti hópur var kallaður á svið og Ólafur flutti ávarp fyrir hönd hópsins sem uppskar mikið lófaklapp hátiðargesta.

Þá var komið að lokum þessarar frábæru dagskrár. Skólameistari þakkaði þeim sem höfðu komið fram með erindi eða skemmtiatriði. Ennfremur þakkaði skólameistari starfsfólki og nemendum fyrir þeirra aðkomu að afmælinu en undirbúningur var algerlega á þeirra höndum.  Gestum var síðan boðið að njóta veitinga í sal skólans. Það var mikil gleði og ánægja í hópnum en í honum vorum margir, sem ekki höfðu hist lengi og því mikið um fagnaðarfundi.

Starfsfólk FSN þakkar þeim fjölmörgu sem heimsóttu okkur á þessum degi og þakkar fjölmargar kveðjur og góðar gjafir.

Myndir af hátíðinni má sjá hér

Myndirnar tók Tómas Freyr Kristjánsson