Haustið 2018 hófst tveggja ára samstarfsverkefni sex skóla sem ber yfirskriftina Science around us. Þátttökulöndin eru auk Íslands, Finnland, Frakkland, Grikkland, Malta og Pólland sem fer með verkefnisstjórn. Markmið verkefnisins er að auka áhuga nemenda og skilning á vísindum og því hversu máttugur mannshugurinn er t.d. við að útskýra og búa til hluti. Eins að þekking þeirra á vísindum og hæfileiki þeirra til að tengja vísindi við daglegt líf aukist og að þau öðlist meiri færni í félagslegum samskiptum, tungumálum og tölvunotkun. Helstu umfjöllunarefnin eru orka, umhverfið og loftslagsbreytingar og náttúruvísindi almennt.
Heimsóknir
Fyrsta heimsókn nemenda og kennara FSN var í nóvember 2018 en þá var farið til Aridaia í Grikklandi. Nemendur dvöldu á heimilum grískra nemenda í eina viku og unnu ýmis konar verkefni með nemendum frá öllum þátttökulöndunum auk þess að skoða Þessaloniku, Pella og fleiri gríska bæi og borgir í nágrenninu.
Í febrúar 2019 var komið að nemendum okkar að heimsækja Finnland, nánar tiltekið skóla í bænum Haapavesi þar sem þau dvöldi á finnskum heimilum.
Í apríl 2019 var förinni haldið til Möltu þar sem dvalið var í viku við nám og leik.
Í október 2019 var haldið til Rumilly í Frakklandi þar sem við dvöldum ýmist í þeim bæ, Aix le Bains eða Annecy. Í þessari heimsókn fórum við í dagsferð til Cern og skoðunarferð til Evian vatnsverksmiðjunnar auk þess að vinna að ýmsum verkefnum.
Við fengum svo heimsókn 22 nemendur og 12 kennara í heimsókn til okkar í febrúar 2020 og dvöldu þau hjá okkur í viku. Við skoðuðum Snæfellsnes í bak og fyrir, eða eins og veður leyfði og heimsóttum svo Hellisheiðarvirkjun, sáum norðurljósasýningu í Perlunni og ,,flugum" yfir Íslands áður en við kvöddum þau.
Enn á síðasta heimsóknin eftir að fara fram en hún var áætluð til Póllands í apríl 2020 en hefur verið frestað til desember 2020.
Síðasta heimsóknin í verkefninu varð á endanum rafræn vegna heimsfaraldurs. Í maí 2021 tóku fjórir nemendur FSN þátt í rafrænum samskiptum og verkefnavinnu sem stýrt var af pólska skólanum og tók það mjög vel.