Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Inngangur

Ávarp skólameistara
Fjölbrautaskóli Snæfellinga hóf starfsemi í ágúst 2004. Markmiðið með stofnun þessa skóla var að skapa metnaðarfullt námsumhverfi þar sem komið yrði til móts við þarfir hvers og eins með sveigjanlegu skipulagi á kennslu og námsmati. Skólinn er frekar nýr skóli og kennsluhúsnæðið er hannað fyrir nýjar kennsluaðferðir sem lítið hafa tíðkast í íslenskum framhaldsskólum og FSN hefur sett sem stefnu sína í kennsluháttum. Við stofnun FSN voru miklar breytingar gerðar á skólahúsnæði og hugmyndafræðin á bak við kennsluhættina var með nýjum blæ og nýjum áherslum þó að líka hafi verið byggt á gömlum kenningum um skólastarf. Þáttur upplýsingatækni og möguleikar tölvutækninnar hafa alla tíð verið nýttir í skólastarfinu og skipa veigamikinn sess í kennsluháttunum.

í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fer fram einstaklingsmiðað nám þar sem sveigjanleiki og upplýsingatækni eru í hávegum höfð. Með hugtakinu einstaklingsmiðuðu og sveigjanlegu námi er átt við nám sem sniðið er meira að þörfum einstaklingsins heldur en nemendahópsins og kennsluaðferðir og kennslurými hafa auðveldað sveigjanleikann. Skólabyggingin er hönnuð með þetta í huga. Allir kennarar í FSN eru dreifkennarar þar sem aðgangur nemenda að þeim er öðruvísi en að hefðbundnum kennurum. Með hugtökunum dreifkennarar og dreifmennt er átt við að kennarar skipuleggja kennsluna með það að markmiði að unnt sé að stunda nám í skólanum eða utan hans.

Hefðbundin fyrirlestrakennsla er ekki notuð sem kennsluaðferð í skólanum þar sem við notum kennsluaðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að séu árangursríkari. Hlutverk kennara felst meira í að vera leiðbeinendur og verkstjórar og undirbúningur kennslu fer fram í gegnum kennsluumsjónarkerfi á netinu þar sem skipulag náms er sett inn ásamt verkefnum. Nemendur geta því unnið sjálfstætt að verkefnum og þá skiptir ekki máli hvort þeir eru í skólabyggingunni eða annars staðar. Samvinna kennara í opnum rýmum hefur leitt til þverfaglegrar samvinnu og aðferðir lausnaleitarnáms hafa verið notaðar þar sem auðvelt er að nota netið til þekkingaröflunar í skóla sem nýtir upplýsingatækni til fullnustu.

 

Ritstjórnarstefna

Skólanámskrá Fjölbrautaskóla Snæfellinga er í tveimur hlutum. Í almennum hluta hennar eru upplýsingar um skipulag skólans, starfsemi hans og stefnu. Í öðrum hluta eru námsbrautalýsingar. Þessi efnisafmörkun er í samræmi við ákvæði 22. greinar laga um framhaldsskóla  frá árinu 2008 þar sem vikið er að skyldu hvers framhaldsskóla til að gefa út skólanámskrá.

Ákveðið hefur verið að birta skólanámskrána aðeins á vef skólans.  Í köflunum koma fram upplýsingar um meginmarkmið skólans og úr þeim tenglar með ítarlegri lýsingum. Með slíkri útgáfu er hægt að tengja skólanámskrá og skólastarf á hverjum tíma nánari böndum en unnt er með hefðbundinni útgáfu á prenti.

Ritnefnd skólanámskrár skipuðu Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, skólameistari ásamt kennurunum Ernu Guðmundsdóttur og Solveigu Guðmundsdóttur.

Skólanámskrá í heild