Það er einstaklega ánægjulegt að geta sagt frá því að í dag var skrifað undir samning vegna íþróttakademíu FSN. Undir samninginn skrifuðu Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson f.h. Snæfells, Hjördís Pálsdóttir f.h. Körfuknattleiksdeildar Snæfells, Tinna Ýr Gunnarsdóttir f.h. UMF Víkings/Reynis og Hrafnhildur Hallvarðsdóttir f.h. Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Undirbúningur að stofnun íþróttaakademíunnar hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma. Við trúum því að þetta samstarf sé gott fyrir nemendur, íþróttafélögin og skólann. Þetta er fyrsta skrefið og vonandi fylgja fleiri félög á eftir.
Nemendur í FSN geta unnið sér inn námseiningar og samhliða því fengið markvissa þjálfun sem skilar þeim lengra í sinni grein sé öllum skilyrðum þar að lútandi fullnægt. Íþróttaakademía FSN er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða bóknámi. Bóklega kennslan mun fela í sér nauðsynlegan fróðleik fyrir þá sem ætla að skara fram úr. Leitast verður við að auka sjálfstraust og bæta sjálfsmynd nemenda til þess að bæta árangur þeirra. Nemendur læra að vera hluti af liðsheild þar sem þeir þurfa bæði að gefa af sér og geta unnið vel með öðrum. Þeir þurfa að tileinka sér þann aga og lífsstíl sem þarf til að ná hámarksárangri í íþróttum, læra að tileinka sér hugsunarhátt afreksmanna, hugsa vel um eigin líkama, borða hollan og góðan mat, temja sér heilbrigt líferni og vera reglusamir í alla staði
Á starfstíma skólans skulu nemendur stunda sína grein samviskusamlega og tryggir Víkingur/Reynir og Snæfell nemendum íþróttaakademíunnar aðgang að markvissri þjálfun og æfingum á vegum félagsins undir handleiðslu viðurkennds þjálfara. Nemendur íþróttaakademíunnar sækja bæði tíma í stundaskrá FSN sem og æfingar á vegum Víkings/Reynis og Snæfells af samviskusemi. Neysla áfengis, tóbaks og fíkniefna er bönnuð í akademíunni og getur brot á þeim reglum valdið brottrekstri úr henni.
Nemendur sem ljúka námi með fullnægjandi hætti í Íþróttaakademíunni fá afhent skírteini því til staðfestingar við brautskráningu frá skólanum.