Leiðsagnarnám

Í Fjölbrautaskóla Snæfellinga er löng hefð fyrir námsmati sem hefur verið kallað leiðsagnarmat en nú yfirleitt kallað leiðsagnarnám. Leiðsagnarnám hefur verið að ryðja sér rúms í mörgum framhaldsskólum og því fannst kennurum í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ ástæða til að hitta aðra kennara sem vinna samkvæmt hugmyndafræði leiðsagnarnáms, eiga samtal við þá og deila hugmyndum. Föstudaginn 25.febrúar var í FMos haldin ráðstefna um leiðsagnarnám í framhaldsskólum. Tveir kennarar úr FSN voru með erindi á málstofum þar sem þeir deildu reynslu sinni af leiðsagnarnámi í blönduðu námsumhverfi, þ.e. námsumhverfi eins og er hér í FSN þar sem nemendahópar eru blanda af dagskólanemendum í Grundarfirði, nemendum í Framhaldsdeild skólans á Patreksfirði auk fjarnemenda. Þau Loftur Árni Björgvinsson, enskukennari og Erna Guðmundsdóttir, íslenskukennari fluttu erindi um leiðsagnarnám og vakti reynsla þeirra og þekking á leiðsagnarnámi mikinn áhuga þeirra sem á hlýddu.

 Í FSN hefur allt nám verið metið með leiðsagnarmati en að sjálfsögðu hafa orðið breytingar á þeim árum sem liðin eru frá því skólastarf hófst í FSN. Ákveðin tímamót urðu árið 2007 eftir að ytri úttekt var gerð á skólanum. Þá kom í ljós að við þyrftum að endurskoða námsmat þannig að það væri meira í takti við þá kennsluhættir sem væru notaðir í nýstárlegu kennslurými skólans. Vorið 2008 fóru allir kennarar skólans á námskeið í Kings College í London og kynntu sér nýjustu hugmyndir um leiðsagnarnám. Innleiðing leiðsagnamats tekur mörg ár og sífellt þarf að endurmeta og breyta bæði eftir því sem starfsmenn öðlast meiri reynslu á leiðsagnarnámi og tækniframförum í kennslu.

Einkenni leiðsagnarmats er að nemandinn er þátttakandi í námsmatsferlinu og leitast er við að gera námsmatið að órjúfanlegum hluta af námi hans. Matið þarf því að vera innbyggt í kennsluna og kennarar gera ráð fyrir námsmati um leið og kennsla er undirbúin. Megintilgangur leiðsagnarmats er að gera nemendur meðvitaða um það sem þeir læra, hvernig þeir læra og til hvers er ætlast af þeim. Leiðsagnarmat byggist á góðri endurgjöf frá kennurum sem nemendur geta nýtt sér til að verða meðvitaðir um eigin námsframvindu ásamt skýrum markmiðum og matsviðmiðum til að nemendur geti vitað til hvers er ætlast af þeim. Nemendur fá tækifæri til að meta eigið nám með sjálfsmati svo þeir skilji tilganginn með námi sínu og hvað þarf til að ná árangri. Samnemendur meta frammistöðu hvers annars í jafningjamati. Jafningjar tala sama tungumál og nemendur taka gagnrýni frá samnemendum á annan veg en frá kennara.

Samræður kennara og nemanda eru algengar þar sem rætt er um nám nemandans og hvernig hann getur náð lengra. Umhyggja kennara fyrir nemandanum og samskipti þeirra á milli hefur áhrif á árangur nemandans. Fjölbreytt námsmat byggir m.a. á kennaramati, sjálfsmati og jafningjamati.  Kennarar leitast við að hafa markmið með hverju verkefni eins skýr og kostur er.