Gæðaráð FSN sendi fyrr í haust út viðhorfskönnun á líðan og þjónustu í FSN til nemenda. Árlega sendir Gæðaráð, sem sér m.a. um sjálfsmat innan skólans, út tvær viðhorfskannanir sem annars vegar mæla viðhorf gagnvart líðan og þjónustu og hins vegar aðstöðu og kennsluhætti við skólann.
Könnunin var send út á alla nemendur sem skráðir eru í nám við skólann og var svarhlutfall um 28%. Flestir svarenda voru staðnemar í Grundarfirði (80%) á meðan 14,5% voru staðnemar við Framhaldsdeild á Patreksfirði.
Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu könnuninni voru mjög eða frekar sammála fullyrðingunni „mér líður vel í skólanum“ (79,6% aðspurðra). 72,7% aðspurðra voru annað hvort frekar sammála eða mjög sammála fullyrðingunni „ég er ánægð/ánægður með að vera í FSN“.
Alls voru nemendur þeirrar skoðunar að þjónusta á skrifstofu (88,6% aðspurðra) og í mötuneyti (84,3 % aðspurðra) væri góð eða mjög góð.
Aðspurðir sögðu flestir nemendur að þeir hefðu valið FSN vegna staðsetningar skólans, sem er í takt við fyrri kannanir.