Í þessari viku fara fram Skuggakosningar í framhaldsskólum landsins.
Þriðjudaginn fengum við í heimsókn fulltrúa allra stjórnmálaflokkana sem bjóða fram til Alþingis 30.nóvember næstkomandi. Frambjóðendur kynntu sig og síðan voru góðar umræður þar sem nemendur í sal voru með spurningar til frambjóðenda.
Í FSN fara Skuggakosningar fram á morgun, fimmtudaginn 21.nóvember frá klukkan 11:00-14:00. Á kjörskrá eru nemendur í dagskóla sem fæddir eru 26.september og síðar.
Hvað eru Skuggakosningar?
Skuggakosningar eða „skólakosningar“ eru settar upp eins og almennar kosningar. Megintilgangur þeirra er að þjálfa þá nemendur sem ekki hafa náð kosningaaldri í að kjósa og undirbúa þá sem hafa aldur til að kjósa í fyrsta sinn. Jafnframt fær ungt fólk reynslu í að skipuleggja og framkvæma hið lýðræðislega ferli kosninga.
Skuggakosningar eru kosningar þar sem framhaldsskólanemar kjósa sína fulltrúa á Alþingi og munu endurspegla vilja nemenda um allt land. Skuggakosningar fara fram í fimmta sinn hér á landi þann 21. nóvember. Niðurstöður verða gerðar opinberar eftir að kjörstöðum lokar á kjördag alþingiskosninga, 30. nóvember.
Hvernig kýs ég?
- Þú framvísar skilríkjum á kjörstað og færð kjörseðil.
- Kosningin er leynileg og fer fram í einrúmi.
- Þú merkir X fyrir framan það sem þú vilt kjósa. Mikilvægt er að gera engar aðrar merkingar á kjörseðilinn því þá telst atkvæðið ógilt.
- Að lokum brýtur þú kjörseðilinn saman þannig að letrið snúi inn og setur hann í kjörkassann.
Nánari upplýsingar: https://www.egkys.is/skuggakosningar