Útskrift 29. maí 2020
Gleðilega hátíð og velkomin á 30.útskriftarhátíð Fjölbrautaskóla Snæfellinga
Í dag verða 26 nemendur útskrifaðir frá skólanum. Einn nemandi lýkur prófi af framhaldsskólabraut, einn nemandi lýkur námi af starfsbraut, tólf nemendur ljúka stúdentsprófi af félags- og hugvísindabraut, níu nemendur ljúka stúdentsprófi af náttúru- og raunvísindabraut og þrír nemendur ljúka stúdentsprófi af opinni braut.
Haustið 2019 buðum við upp á nýja námslínu og gátu nemendur þá skráð sig í nám á íþróttabraut. Draumur okkar í skólanum er að vera næsta vetur búin að ljúka við hönnun á tveimur nýjum brautum, hagfræðibraut og nýsköpunarbraut.
Það er oft sagt að skóli er ekki bara nám og kennsla. Í skóla þarf að vera félagslíf nemenda og en sá þáttur skólastarfsins var verulega öðruvísi. á vorönn. Haustönnin gekk ágætlega fyrir sig og hefðbundnir liðir sem eru á hverjum vetri, svo sem nýnemaball, jólaball, og kaffihúsakvöld voru haldnir samkvæmt venju. Vorönnin gekk ekki alveg eins fyrir sig. við náðum að hafa árshátíð með sameiginlegu borðhaldi nemenda og starfsfólks og skemmtiatriðum frá nemendafélaginu en við aflýstum árshátíðaballinu vegna Kórónaveirunnar. Við vildum ekki of mikla nálægð nemenda. Daginn eftir árshátíðina komu fyrirmæli frá heilbrigðisráðherra um að öllum framhaldsskólum yrði lokað. Þetta var föstudaginn 13.mars.
En við kláruðum önnina samkvæmt áætlun. Þessi frábæri hópur nemenda og starfsfólks stóð sig framúrskarandi vel og í dag er þessi hópur að sjá uppskeruna af vinnunni. við upplifðum líka að bæði nemendur og starfsfólk var mjög vel undirbúið og tilbúið til að takast á við kennslu af þessu tagi og engin stórvægileg vandamál komu upp. Nemendur mættu í tíma á netinu, skiluðu verkefnum og tóku próf. Enn einu sinni sannar þessi skóli hvað þær kennsluaðferðir sem hér hafa verið notaðar frá upphafi skólans eru í takti við nýja tíma og ég held að nemendur okkar séu þátttakendur í hinni títt nefndu fjórðu iðnbyltingu. Ég færi nemendur og starfsfólki öllu innilegar þakkir fyrir frábært starf á þessum einstöku tímum.
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari
Útskrift maí 2020