Gauti Daðason hélt ræðu á útskriftarhátíð FSN en hann varð 10 ára stúdent 24.maí.
Gauti veitti okkur góðfúslegt leyfi til að birta ræðuna hér á heimasiðu skólans.
Kæru nýstúdentar, háttvirtur skólameistari og aðrir góðir gestir.
Gauti Daðason heiti ég. Það er mér sannur heiður að vera hér með ykkur í dag og flytja ræðu tíu ára stúdents. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég þurfti að hugsa mig um - hvort það gætu verið liðin 10 ár frá því ég kom hér síðast og tók við prófskírteini. En það passar – það var í maí 2014, í svipuðu veðri og ég man tilfinninguna. Einhverja blöndu af stolti, gleði og spennu um hvað tæki við en um leið kvíða – vegna þess að nú þyrfti ég loksins að ákveða hvað ég ætlaði að verða.
Ég kunni vel við mig hér í fjölbrautaskólanum. Fólkið var gott og námsfyrirkomulagið hentaði mér vel, manni sem vissi ekki hvað hann vildi verða. Að velja þá áfanga sem ég vildi taka með hæfilegu aðhaldi við að vinna mig jafnt og þétt í gegnum námsefnið með reglulegum verkefnaskilum. Ég útskrifaðist svo af náttúrufræðibraut, en með góðum kokteil af öllum þeim fjölbreyttu áföngum sem skólinn hafði upp á að bjóða.
Eftir útskrift ákvað ég að skrá mig í lögfræði við Háskóla Íslands. Þar var fyrirkomulagið annað og mér mættu strax próf. Fyrst var inntökupróf, nokkurra klukkustunda próf þar sem reyndi á lesskilning, framsetningu texta og eitthvað fleira sem ég man nú ekki alveg hvað var. Ég undirbjó mig reyndar voðalega lítið fyrir það, skráði mig bara á síðasta mögulega degi og mætti í prófið – hálfpartinn með það í huga að ég væri þá búinn að skrá mig í skólann og gæti skipt um námsbraut ef mér snerist hugur. Ég hafði þó engar áhyggjur af því að ná ekki prófinu – einkunnin átti að samanstanda af lokaeinkunn úr framhaldsskóla og prófseinkunn og ég vissi að undirbúningurinn héðan myndi reynast mér vel. Svo sá ég það líka á nafnalistanum þegar ég mætti að það voru færri skráðir í prófið en áttu að hefja nám haustið eftir – þannig að það gat ekki klikkað.
Ég ákvað að prófa lagadeildina og þar hófst námið á stuttu námskeiði þar sem farið var hratt yfir inngang að lögfræði á um fjórum vikum og svo var krossapróf úr efninu. Þar var fyrsta alvöru áskorunin komin og nokkuð mikið fall – en ég hafði lært jafnt og þétt, í raun bara eins og hér í skólanum, án þess þó að ég þyrfti að skila verkefnum og það skilaði árangri. Það var þó ekki alltaf svoleiðis – mér lá kannski of mikið á að skrá mig í áframhaldandi nám – og ég átti það til að gleyma vinnubrögðunum sem mér höfðu verið kennd og árangurinn þá eftir því.
Þetta hafðist þó allt. Ég ákvað að setja undir mig hausinn og klára lagadeildina og gerði það – með smá stoppi í skiptinámi í KU Leuven í Belgíu. Mun stærri háskóla þar sem kennsluhættir eru allt aðrir en ég hafði átt að venjast hér heima og sem er mun ofar á styrkleikalistum en Háskóli Íslands og aðrir háskólar hér á landi. Alveg það sama átti þó við þar, vinnubrögðin og grunnurinn héðan skilaði mér árangri.
Frá útskrift úr lagadeildinni hef ég svo unnið sem lögfræðingur í Stjórnarráði Íslands, sem sagt í ráðuneytum, og það hefur oft komið mér á óvart hvað hefur nýst mér í því starfi. Auðvitað þetta augljósa eins og íslenska og enska en svo líka að geta sett upp kynjafræðigleraugun og jafnréttismetið lagafrumvarp svo dæmi sé nefnt. Vinnunni fylgja svo oft ræðuskrif – oftast eru það frekar þurrar framsöguræður þar sem helstu efnisatriðum lagafrumvarps eru gerð skil og óheppinn ráðherra flytur í ræðustól Alþingis. Þessi ræða er annars eðlis svo ég ákvað að rifja upp gamla takta og sendi Ernu íslenskukennara hana í gærkvöldi og bað hana um að lesa yfir. Athugasemdirnar voru nú heldur jákvæðari en ég átti að venjast sem nemandi og sem betur fer gerðu aðrir kennarar ekki sömu kröfur til mín og mamma.
En af því að ég er ekki sami ræðumaður og ráðherrarnir og ætla ég ekki að hafa ræðuna mikið lengri. Mig langar bara að enda á því að segja að ef þið vitið hvert hugurinn stefnir, þá látið vaða. Maður sér mikið oftar eftir því að hafa ekki þorað heldur en að hafa stokkið. En ef þið eruð í sömu sporum og ég var fyrir 10 árum og vitið ekki hvað þið viljið að taki við – liggur ykkur ekkert svoleiðis á. Verið bara óhrædd við að standa með ykkur sjálfum og finna hvað heillar og hentar ykkur. Áskoranirnar verða óhjákvæmilegar og mistök gera allir en það man þau nú oftast enginn nema þið.
Til hamingju og gangi ykkur allt í haginn. Takk fyrir mig.