Áfanginn Kaupmannahöfn, menning og mannlíf fór saman til Kaupmannahafnar fimmtudaginn 21. nóvember. Níu nemendur lögðu af stað með kennara og var mikil tilhlökkun í hópnum.
Við byrjuðum ferðalagið á að leigja hjól, hjóluðum í gegnum borgina og fórum í heimsókn í Jónshús, samkomuhús Íslendinga í Kaupmannahöfn. Þar tók Halla Benediktsdóttir, umsjónarmaður Jónshúss á móti okkur og sagði okkur frá starfseminni og sýndi okkur heimili Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar konu hans.
Næsta dag röltum við niður í bæ, skoðuðum Christiansborg og enduðum daginn á því að fara í Tivoli þar sem fallegu jólaljósin skörtuðu sínu fegursta.
Á laugardeginum fórum við á Færgecaféen á Christianshavn í ekta danskan julefrokost, þar borðuðum við á bát sem var skemmtileg upplifun. Þarnæst röltum við í Christianiu og skoðuðum okkur um.
Við byrjuðum síðasta daginn okkar á að heimsækja höllina, Amalienborg, þar sem við fylgdumst með vaktaskiptum hjá lífvörðunum í grenjandi rigningu. Við tók klukkustundar sigling um sýki Kaupmannahafnar og um kvöldið fórum við saman allur hópurinn út að borða.
Það voru þreyttir en glaðir og kátir nemendur sem lögðu af stað heim snemma á mánudagsmorgun. Ferðin gekk eins og í sögu og voru nemendur allir sem einn til fyrirmyndar.
Hér má sjá myndir frá ferðinni