Nemendur í þýskuáfanga fóru til Berlinar ásamt kennara sínum, henni Hólmfríði Friðjónsdóttur
Í ferðina fóru 13 nemendur, sex drengir og sjö stúlkur. Öll stunda þau nám í þýsku og taka Berlínaráfangann samhliða bóklegum áfanga. Gist var á Meininger Hof, ágætu hóteli skammt frá Alexanderplatz. Nemendur voru fljótir að læra að lestarkerfið, öll með miða sem gilti í allar samgöngur alla dagana og gátu því notið þess að vera svolítið sjálfstæð þegar frjáls tími gafst. Fyrsta daginn dáðumst við að borginni úr 368 metra hæð ofan úr Sjónvarpsturninum, sem er eitt af kennileitum borgarinnar. Næsta dag var farið í hjólaferð með góðri íslenskri leiðsögn um helstu sögustaði og um kvöldið borðuðum við saman á Hard-rock Café. Boðið var upp á ferðir til Potsdam, þar sem undurfalleg höll og hallargarður voru skoðuð og síðasta daginn skruppu þeir sem vildu til Sachsenhausen og skoðuðu útrýmingarbúðir nasista úr Seinni heimsstyrjöldinni. Það var mikil upplifun. Ferðina endaði hópurinn í kröftugu Go-kart þar sem Magni Blær Hafþórsson bar sigur úr býtum. Veðrið var gott, ekki kom deigur dropi úr lofti og sól skein í heiði suma dagana. Sannarlega ánægjuleg ferð og nemendur urðu sér og Fsn algjörlega til sóma.