Skólinn

Saga FSN og Jeratúns 

Fjölbrautaskóli Snæfellinga, FSN var stofnaður árið 2004 og hófst kennsla sama haust. Markmið skólans er að skapa metnaðarfullt námsumhverfi þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins með sveigjanlegu skipulagi. Einnig er lögð áhersla á persónuleg samskipti starfsfólks og nemenda og að nemendur mæti ávallt alúðlegu viðmóti. Fjölbrautaskóli Snæfellinga er framhaldsskóli með sveigjanlegt og nýstárlegt námsfyrirkomulag þar sem námsrýmin eru opin. Frá stofnun skólans hefur skólinn verið leiðandi í breyttum kennsluháttum með því að nýta sér upplýsingatækni í skólastarfi. Allt skipulag skólans tekur mið af því.

Arkitektar skólans eru Indro Indriði Candi og Sigurður Björgúlfsson hjá VA arkitektum ehf. og er húsnæðið hannað í kringum þá hugmyndafræði sem skólinn byggir á. Byggingin er í eigu Jeratúns ehf. sem er einkahlutafélag í eigu Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar og Sveitarfélagsins Stykkishólms. Hlutverk félagsins er bygging og rekstur skólahúsnæðis Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga, FSN stendur við aðalgötu Grundarfjarðar þar sem heitir Sigurhæðir. Í daglegu tali gekk bletturinn, sem skólinn stendur á, undir nafninu Jeratún og var það nafn valið á eignarhaldsfélagið. Túnið var kennt við Jeremías Kjartansson sem bjó í litlu húsi við túnið ásamt eiginkonu sinni, Cecilíu Kristjánsdóttur og börnum. 

Jéri og Cella eins og þau voru kölluð í daglegu tali eru dæmigerð fyrir fólk sem fluttist úr sveit í bæ, átti mörg börn en þau eignuðust ellefu börn. Móðirin bæði vann úti og sá um börn og heimili. Jéri fann sér vinnu sem sjálfstæður með traktorinn sinn og loftpressu. Jéri var ávallt með kindur og heyjaði túnið sem skólinn var síðan byggður á. Jéri sló ætíð með orfi og ljá þrátt fyrir að flestir bændur voru búnir að vélvæðast á þessum tíma. Síðustu kindur voru á túninu árið 2002.

Hjónin Cecilía Kristjánsdóttir og Jeremías Kjartansson á Sigurhæðum ásamt börnunum sínum sem voru ellefu talsins, stór og flottur systkinahópur eins og sést best á myndinni. Fjölskyldan flutti frá Þórdísarstöðum út í Grafarnes á sjötta áratugnum þar sem þau bjuggu á Sigurhæðum, Grundargötu 44 og voru því með þeim fyrstu sem byggðu upp þorpið Grafarnes sem nú er Grundarfjarðarbær.

------------------------------------------------------

Fjölbrautaskóli Snæfellinga var stofnaður árið 2004 og hófst kennsla sama haust. Markmið skólans er að skapa metnaðarfullt námsumhverfi þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins með sveigjanlegu skipulagi. Einnig er lögð áhersla á persónuleg samskipti starfsfólks og nemenda og að nemendur mæti ávallt alúðlegu viðmóti.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er framhaldsskóli með sveigjanlegt og nýstárlegt námsfyrirkomulag þar sem námsrýmin eru opin og allt  nám er skipulagt með aðstoð kennslukerfisins „Moodle“. Frá stofnun skólans, árið 2004 hefur hann verið leiðandi í breyttum kennsluháttum með því að nýta sér upplýsingatækni í skólastarfi. Allt skipulag skólans tekur mið af því. Meginmarkmið breyttra kennsluhátta er að gera nám nemenda skilvirkara og að þeir nái betri tökum á námi sínu. Við kennslu eru notaðar aðferðir sem rannsóknir sýna að virki betur en hefðbundnar aðferðir. Þessar aðferðir eiga það sameiginlegt að megináhersla er lögð á uppgötvunarnám og lausnarleit nemandans  og gera hann virkari og ábyrgari í eigin námi. Upplýsingatæknin er nýtt á fjölbreyttan hátt og fléttast inn í flesta þætti skólastarfsins. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemenda og að þeir tjái sig munnlega og skriflega um innihald námsins. Hugmyndafræði leiðsagnarmats er höfð til grundvallar öllu námsmati. Hún byggir á því að vinna og verkefni nemenda eru metin reglulega með uppbyggjandi hætti.